Ársskýrsla formanns á 30 ára afmælisaðalfundi Flugmódelfélagsins Þyts 9. nóvember 2000

 

Ágætu félagar,

 

Ég vil byrja á að óska okkur öllum til hamingju með stórkostlegt 30 ára afmæli félagsins og færa öllum sem lagt hafa hönd á plóginn í uppákomum ársins bestu þakkir. Félagið hefur í 30 ár verið öflugur bakhjarl þeirra sem smíða og fljúga fjarstýrðum flugmódelum og vettvangur fyrir fræðslu, félagsstarf og þjálfun á því sviði. Ég vil af þessu tilefni sérstaklega nefna Einar Páll Einarsson sem var formaður Þyts fyrstu átta árin, en faðir hans Einar Pálsson smíðaði fyrstu fjarstýringuna sem flogið var með hér á landi. Módelið sem flogið var með þessari fyrstu fjarstýringu var sviffluga sem hönnuð var og flogið af Pétri Filipussyni föður Jóns V. Pétursonar.

 

30 ÁRA AFMÆLISFAGNAÐUR 7. MARS

Flugmódelfélagið Þytur stóð fyrir 30 ára afmælisfagnaði 7. mars 2000 og þar voru fjórir félagar okkar gerðir að heiðursfélögum, þeir Axel Sölvason, Ásgeir Long, Ólafur Sverrisson og Birgir Sigurðsson. Sérstaka heiðursviðurkenningu í tilefni 30 ára afmælisins fékk eini stofnfélaginn á afmælisfagnaðinum, Jón Pétursson. Tíu aðrir félagar fengu viðurkenningu fyrir framlag til ýmissa þátta í starfi félagsins. Viðurkenningu fyrir framlag til félagsmála fengu Ágúst Bjarnason og Pétur Hjálmarsson, viðurkenningu fyrir framlag til svifflugs fengu Frímann Frímannsson og Hannes S. Kristinsson, viðurkenningu fyrir framlag til fræðslu fékk Kristján Antonsson, viðurkenningu fyrir framlag til tækni fékk Rafn Thorarinsen, viðurkenningu fyrir framlag til Flugmálafélagsins fékk Björgúlfur Þorsteinsson, viðurkenningu fyrir framlag til módelsmíði fékk Skjöldur Sigurðsson, viðurkenningu fyrir framlag til heimasíðu fékk Arnar B. Vignisson og viðurkenningu fyrir framlag til árangurs í flugi fékk Böðvar Guðmundsson. Rétt til gamans fyrir þá sem fóru snemma, þá byrjaði fjörið ekki fyrr en upp úr miðnætti og þar misstu menn af skemmtilegum og hressilegum uppákomum. Sérstakar þakkir fyrir umsjón með afmælisfagnaðinum fá Steinþór og Sigurður Júlíusson að ógleymdu Balsabandinu sem sló hressilega í gegn.

 

FLUGVÖLLUR OG FLUGSTÖÐVARHÚS

Fyrstu áratugina var oft flogið við frumlegar og erfiðar aðstæður eða þar til á árunum 1988 til 1990 þegar félagið fékk úthlutað 70.000 fermetra svæði undir flugvöll og flugstöð á Hamranesi í Kapelluhrauni fyrir sunnan Hafnarfjörð. Á nokkrum árum var þar komið upp tveggja brauta malbikuðum flugvelli, þjónustusvæði fyrir þá sem eru að fljúga og glæsilegu flugstöðvarhúsi (opnað 1990). Þetta afrek er ótrúlegt þegar litið er til þess að félagsmenn voru aðeins um eitt hundrað á þessum tíma. Þessi aðstaða er líklega með þeim betri sem til eru í Evrópu. Svæðinu var í upphafi úthlutað til 10 ára og þeim samningi var síðan framlengt á árinu 1999. Hafnarfjarðarbær hefur staðið vel við bakið á Þytsfélögum með viðhaldi á vegum, slætti á flugvallarsvæðinu og fleiru frá því svæðið var afhent félaginu. Þegar fjallað er um flugvöllin og flugstöðvarhúsið er ekki hægt annað en að færa Ellert og Andresi bestu þakkir fyrir umsjón með þessum glæsilegu eignum. Oft hafa þeir þurft að standa einir í hlutunum og ég hvet félagsmenn til að styðja betur við bakið á svona mönnum en gert hefur verið.

 

MÓTAHALD

Flugmódelfélagið Þytur hefur á 30 árum staðið fyrir íslandsmótum í vél- og svifflugi, séð um framkvæmt á norðurlanda- og heimsmeistara-mótum í svifflugi og margir félagsmenn tekið þátt í sambærilegum mótum erlendis. Einnig eru árlega haldin hraðflugsmót, lendingarkeppnir og fjölbreyttar aðrar skemmtilegar uppákomur í módelflugi. Fyrir þessum aðlafundi liggur tillaga stjórnar um að félagið taki að sér að halda norðurlandamót í F3F hangflugi á svifflugvélum á næsta ári og ég hvet menn til að samþykkja þessa tillögu og standa að framkvæmdinni með sóma.

 

NÝLIÐUN

Nýliðum hefur fjölgað verulega í Þyt undanfarið og mikilvægt er að sinna þeim vel, en það hefur ávalt verið forgangsmál í Þyt að sinna vel kennslu og þjálfun nýliða í módelsmíði- og flugi. Með stuðningi Reykjavíkurborgar fjárfesti Þytur á síðasta ári í tveimur fullkomnum fjarstýringum og kennsluflugmódelum og býður í dag upp á módelflug-námskeið þar sem reyndir flugmenn kenna. Fyrir þessum fundi liggur tillaga um að skipa í sérstaka nefnd um þennan málaflokk, en með því er stefnt að markvissari framkvæmd í þessum málaflokki.

 

TÆKNI OG STÓR MÓDEL

Flestir félagsmenn í Flugmódelfélaginu Þyti bæði smíða og fljúga sínum flugmódelum, en síðustu árin hefur framboð á tilbúnum flugmódel-um aukist verulega. Þetta hefur auðveldað þeim sem vilja einbeita sér að fluginu að sinna áhugamáli sínu. Stærri flugmódelum hefur fjölgað verulega og sérstaklega vélum í ¼ og 1/3 stærð af raunverulegum flugvélum. Tækjabúnaður sá sem notaður er fyrir módelflug hefur batnað verulega tæknilega og er nú svo komið að flestir nota tölvustýrðar fjarstýringar sem hafa ótrúlega fjölbreytta möguleika til að stilla rafmótora þá sem stjórna stýriflötum flugmódelanna. Nokkrir aðilar í Flugmódelfélaginu Þyt hafa í gegnum árin verið í  sérflokki  varðandi smíði á “skalamódelum” og hægt var að sjá marga af þessum dýrgripum á flugmódelsýningu  í Kolaportinu á síðasta ári.

 

30 ÁRA AFMÆLISFLUGDAGUR

Afmælisárið hefur verið viðburðarríkt og fyrir utan afmælisfagnaðinn 7. mars var haldinn glæsileg flughátíð á Hamranesi þann 25. júní. Skemmtilegast fannst mér að sjá gömlu félagana Axel, Ásgeir og Ólaf komna með okkur í undirbúninginn að flugdeginum, en þeir ásamt Sigurði Júlíussyni, Böðvari Guðmundssyni, Kristjáni Antons, Ágústi Björnssyni, Pétri Hjálmarssyni og fleirum gerðu þennan dag að einum stórkostlegasta viðburði félagsins frá upphafi. Talið er að um 1000 manns hafi heimsótt okkur þennan dag og engin óhöpp urðu á fólki eða flugvélum.

 

HÓPFERÐ TIL CORSFORD

Níu félagsmenn í Þyt og einn frá Akureyri fóru í eftirminnilega hópferð til Corsford í Englandi á risaflugkomu LMA. Ég fór í þessa ferð ásamt syni mínum og aldrei áður hef ég upplifan annað eins og þessa ferð. Björgúlfur Þorsteinsson var fararstjóri og hafði ásamt Skyldi og Steve undirbúið ferðina. Þeim vil ég þakka fyrir hönd þátttakenda fyrir frábæra ferð sem líklega aldrei verður slegin út. Fyrir þessum fundi liggur tillaga um að Þytur standi að hópferð á risaflugkomu LMA í Corsford á næsta ári. Ég hvet þá sem ekki hafa farið þangað áður, til að koma með í þessa ferð á næsta ári ef þessi tillage verður samþykkt.

 

FLUGKOMA Á MELGERÐISMELUM

Margir félagsmenn í Þyt heimsóttu Flugmódelfélag Akureyrar helgina eftir verslunarmannahelgina og var gist í húsi þeirra á Melgerðismelum og gistihúsum í Eyjafirði og á Akureyri. Þessi helgi heppnaðist mjög vel og þarna var í fyrsta skipti flogið módelþotu á Íslandi í eigu Karls Hamilton, en flugmaður var Jón V.Pétursson. Talin voru 35 flugmódel á staðnum og segir það mikið um hversu margir höfðu komið norður um þessa helgi. Flugmódelmenn á Akureyri tóku vel á móti okkur og ég hvet þá sem ekki hafa komið á þessa árlegu helgi, að gera það á næsta ári.

 

FJÁRMÁL

Farið verður yfir reikninga félagsins hér á eftir, en veruleg aukning hefur orðið á veltu félagsins á milli ára og félagið rekið með hagnaði. Rétt er að hafa í huga að eftir næsta ár mun innkoma félagsgjalda hækka verulega eða þegar ævifélagarnir koma inn. Á þessum tímamótum er nefnilega við hæfi að þakka þessum svokölluðu brautarfélögum/ævifélögum sem  voru frumkvöðlar í að leggja grunn að því glæsilega umhverfi sem áhugafólk á fjarstýrðum flugmódelum býr við og nýtur í dag. Nýliðar í þessu stórkostlega sporti njóta þess að byrja í dag við bestu fáanlegar aðstæður, þökk sé ævifélögunum í Flugmódelfélaginu Þyti.

 

ÞAKKIR

Ég þakka stjórnarmönnum samstarfið og sérstaklega Sigurði Júlíussyni fyrir stjórnarsetuna, en hann ákvað að gefa ekki kost á sér aftur í stjórn. Ég þakka að lokum fyrir einstaklega ánægjulegt samstarf við alla flugmódelmenn á árinu og tilkynni að ég hef ákveðið að gefa kost á mér aftur til formennsku, ef þessi fundur hefur ekki einhvern betri til að bjóða upp á.

 

Hafnarfirði 9. nóvember 2000

Guðmundur G. Kristinsson, formaður Flugmódelfélagsins Þyts